Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins

 

Reagila 1,5 mg munndreifitöflur

Reagila 3 mg munndreifitöflur

Reagila 4,5 mg munndreifitöflur

Reagila 6 mg munndreifitöflur

 

cariprazín

 

Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum eru mikilvægar upplýsingar.

  • Geymið fylgiseðilinn. Nauðsynlegt getur verið að lesa hann síðar.
  • Leitið til læknisins eða lyfjafræðings ef þörf er á frekari upplýsingum.
  • Þessu lyfi hefur verið ávísað til persónulegra nota. Ekki má gefa það öðrum. Það getur valdið þeim skaða, jafnvel þótt um sömu sjúkdómseinkenni sé að ræða.
  • Látið lækninn vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Sjá kafla 4.

 

Í fylgiseðlinum eru eftirfarandi kaflar:

  1. Upplýsingar um Reagila og við hverju það er notað
  2. Áður en byrjað er að nota Reagila
  3. Hvernig nota á Reagila
  4. Hugsanlegar aukaverkanir
  5. Hvernig geyma á Reagila
  6. Pakkningar og aðrar upplýsingar

1. Upplýsingar um Reagila og við hverju það er notað

Reagila inniheldur virka efnið cariprazín og tilheyrir flokki lyfja sem kallast geðrofslyf. Það er ætlað til meðferðar hjá fullorðnum sjúklingum með geðklofa.

Geðklofi er sjúkdómur sem lýsir sér með einkennum eins og að heyra, sjá eða skynja hluti sem ekki eru til staðar (ofskynjanir), tortryggni, ranghugmyndum, samhengislausu tali og hegðun og tilfinningalegri flatneskju. Fólk með þennan sjúkdóm getur einnig fundið fyrir depurð, sektarkennd, kvíða, spennu, það getur ekki byrjað á eða haldið sig við skipulagðar athafnir, tregðu við að tala og skorti á tilfinningalegum viðbrögðum við aðstæður sem venjulega örva tilfinningar hjá öðrum.

2. Áður en byrjað er að nota Reagila

Ekki má nota Reagila

  • ef um er að ræða ofnæmi fyrir cariprazíni eða einhverju öðru innihaldsefni lyfsins (talin upp í kafla 6).
  • ef þú tekur eftirfarandi lyf sem notuð eru til að meðhöndla:
    • lifrarbólgu af völdum lifrarbólgu C veiru (lyf sem innihalda bóceprevír og telaprevír)
    • bakteríusýkingar (lyf sem innihalda klarítrómýsín, telítrómýsín og nafsillín)
    • berkla (lyf sem innihalda rifampicín)
    • HIV-sýkingar (lyf sem innihalda cobicistat, indínavír, nelfínavír, rítónavír, sakvínavír, efavírenz og etravírín)
    • sveppasýkingar (lyf sem innihalda ítrakónazól, posakónazól og vórikónazól)
    • Cushings heilkenni – þegar líkaminn framleiðir of mikið kortisól (lyf sem innihalda ketókónazól)
    • þunglyndi (jurtameðferð sem inniheldur jóhannesarjurt (Hypericum perforatum) og lyf sem innihalda nefazódón)
    • flogaveiki og krampa (lyf sem innihalda karbamazepín, fenóbarbital og fenýtóín)
    • syfju (lyf sem innihalda módafíníl)
    • háan blóðþrýsting í lungum (lyf sem innihalda bósentan).

 

Varnaðarorð og varúðarreglur

Láttu lækninn tafarlaust vita:

  • ef þú ert með einhverjar hugsanir eða tilfinningar um að skaða þig eða fremja sjálfsvíg. Sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígshegðun eru líklegri í upphafi meðferðar.
  • ef þú finnur fyrir hita, svita, hraðari öndun, vöðvastífleika og sleni eða syfju (geta verið einkenni illkynja sefunarheilkennis).

 

Leitið ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en Reagila er notað eða meðan á meðferð stendur ef þú hefur:

  • einhvern tíma fundið fyrir eða byrjar að finna fyrir eirðarleysi og vanhæfni við að sitja kyrr. Þessi einkenni geta komið fram snemma í meðferðinni með Reagila. Láttu lækninn vita ef þetta gerist.
  • einhvern tíma fundið fyrir eða byrjar að finna fyrir óeðlilegum, ósjálfráðum hreyfingum, oftast í tungu eða í andliti. Láttu lækninn vita ef þetta gerist.
  • sjónskerðingu. Læknirinn mun ráðleggja þér að fara til augnlæknis.
  • óreglulegan hjartslátt eða ef einhver annar í fjölskyldunni hefur sögu um óreglulegan hjartslátt (þ.m.t. svokallaða lengingu á QT-bili sem sést á hjartalínuriti (ECG)) og láttu lækninn vita ef þú tekur önnur lyf, því að þau gætu valdið þessari breytingu á hjartalínuritinu eða gert hana verri.
  • háan eða lágan blóðþrýsting, hjarta – eða æðasjúkdóm. Læknirinn þarf að fylgjast reglulega með blóðþrýstingnum.
  • sundl þegar þú stendur upp vegna blóðþrýstingsfalls, sem getur valdið yfirliði
  • sögu um blóðtappa eða ef einhver í fjölskyldu þinni hefur sögu um blóðtappa, þar sem lyf við geðklofa hafa verið tengd myndun blóðtappa.
  • sögu um heilablóðfall, sérstaklega ef þú ert aldraður eða veist að þú ert með aðra áhættuþætti fyrir heilablóðfalli. Láttu lækninn tafarlaust vita ef þú tekur eftir einkennum heilablóðfalls.
  • vitglöp (minnisleysi eða aðra andlega skerðingu), sérstaklega ef þú ert aldraður.
  • Parkinsonsveiki.
  • ef þú ert með sykursýki eða áhættuþætti fyrir sykursýki (t.d. offitu, eða ef einhver annar í fjölskyldunni þinni hefur sykursýki). Læknirinn þarf að fylgjast reglulega með blóðsykrinum, þar sem hann kann að hækka af völdum Reagila. Einkenni um háan blóðsykur eru mikill þorsti, mikil þvaglát, aukin matarlyst og máttleysi.
  • sögu um krampa (flog) eða flogaveiki.

 

Þyngdaraukning

Reagila getur valdið verulegri þyngdaraukningu sem getur haft áhrif á heilsuna. Læknirinn mun því fylgjast reglulega með þyngd þinni.

 

Börn og unglingar

Ekki er mælt með notkun þessa lyfs fyrir börn og unglinga yngri en 18 ára þar sem upplýsingar vantar fyrir þessa sjúklinga.

 

Notkun annarra lyfja samhliða Reagila

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um öll önnur lyf sem eru notuð, hafa nýlega verið notuð eða kynnu að verða notuð. Þú mátt ekki taka ákveðin lyf samhliða Reagila (sjá kaflann „Ekki má nota Reagila“). Ef Reagila er tekið samhliða ákveðnum lyfjum gæti þurft að aðlaga skammt Reagila eða hins lyfsins. Þetta eru m.a. lyf sem notuð eru til meðferðar á:

  • hjartasjúkdómum (t.d. digoxín, verapamíl, diltíazem),
  • blóðtöppum (blóðþynningarlyf (lyf sem koma í veg fyrir blóðtappa), t.d. dabigatran),
  • sýkingum af völdum baktería (t.d. erýtrómýsín),
  • sveppasýkingum (t.d. flúkónazól).

Nota skal Reagila með varúð samhliða öðrum lyfjum sem hafa áhrif á andlega starfsemi.

 

Notkun Reagila með mat, drykk eða áfengi

Þú skalt ekki drekka greipaldinsafa meðan á meðferð með Reagila stendur. Forðast skal áfengisneyslu meðan á töku Reagila stendur.

 

Meðganga og brjóstagjöf

 

Konur á barneignaraldri / getnaðarvörn

Konur á barneignaraldri verða að nota örugga getnaðarvörn meðan á meðferð með Reagila stendur. Jafnvel þótt meðferðinni sé lokið, verður að nota getnaðarvörn í a.m.k. 10 vikur eftir síðasta skammtinn af Reagila. Þetta er vegna þess að lyfið verður til staðar í líkamanum í nokkurn tíma eftir að síðasti skammturinn var tekinn. Ef þú notar hormónagetnaðarvarnir skaltu einnig nota svokallaða hindrunaraðferð (t.d. smokk eða hettu). Ráðfærðu þig við lækninn varðandi val á hentugri getnaðarvörn.

 

Meðganga

Ekki taka þetta lyf á meðgöngu nema læknirinn hafi sagt þér að gera það.

 

Ef læknirinn ákveður að þú eigir að taka þetta lyf á meðgöngu, mun læknirinn fylgjast náið með barninu eftir fæðingu. Það er vegna þess að eftirfarandi einkenni geta komið fram hjá nýburum mæðra sem hafa notað lyfið á síðasta þriðjungi meðgöngu (síðustu þremur mánuðunum):

  •  skjálfti, vöðvastífni og/eða vöðvaslappleiki, syfja, æsingur, öndunarerfiðleikar og erfiðleikar við fæðugjöf.

Ef barnið fær einhver þessara einkenna skaltu hafa samband við lækninn.

 

Brjóstagjöf

Ekki hafa barn á brjósti ef þú tekur Reagila því að ekki er hægt að útiloka áhættu fyrir börn sem eru á brjósti. Hafðu samband við lækninn til að fá ráðleggingar.

 

Akstur og notkun véla

Lítil eða væg hætta er á að lyfið geti haft áhrif á hæfni til aksturs og notkunar véla. Syfja, sundl og sjóntruflanir geta komið fram meðan á meðferð með lyfinu stendur (sjá kafla 4). Ekki aka eða stjórna tækjum eða vélum fyrr en vitað er að lyfið hefur ekki neikvæð áhrif.

 

Reagila munndreifitöflur innihalda natríum

Lyfið inniheldur minna en 1 mmól (23 mg) af natríum í hverri munndreifitöflu, þ.e.a.s. er sem næst natríumlaust.

3. Hvernig nota á Reagila

Notið lyfið alltaf eins og læknirinn hefur sagt til um. Ef ekki er ljóst hvernig nota á lyfið skal leita upplýsinga hjá lækninum eða lyfjafræðingi.

 

Ráðlagður upphafsskammtur er 1,5 mg einu sinni á dag um munn. Eftir það gæti læknirinn stillt skammtinn hægt, í 1,5 mg skrefum, eftir því hvernig meðferðin virkar fyrir þig.

Hámarksskammtur ætti ekki fara yfir 6 mg einu sinni á dag.

 

Taktu Reagila á sama tíma á hverjum degi, með eða án fæðu.
Ekki opna þynnuna fyrr en þú ert tilbúin/-n til að taka lyfið. Rífðu eina stakskammtaþynnu af þynnuspjaldinu meðfram rifgötuðu línunni og flettu filmunni af þannig að taflan sjáist. Ekki ýta töflunni í gegnum þynnuna vegna þess að það getur skemmt töfluna.
Um leið og þynnan hefur verið opnuð skaltu fjarlægja töfluna með þurrum höndum og setja heila munndreifitöflu á tunguna. Taflan leysist hratt upp í munnvatni. Ekki tyggja eða gleypa töfluna heila, bíddu þar til hún leysist upp í munninum.
Einnig er hægt að leysa töfluna upp í vatni og drekka dreifuna sem myndast. Í því tilviki skal hræra innihaldi glassins vel til að koma í veg fyrir að óuppleystar töfluleifar botnfalli.

 

Ef þú tókst annað lyf til að meðhöndla geðklofa áður en gjöf Reagila hófst mun læknirinn ákveða hvort stöðva eigi töku hins lyfsins í áföngum eða tafarlaust og hvernig aðlaga skuli skammtinn af Reagila. Læknirinn mun einnig gefa þér upplýsingar um hvað þú eigir að gera ef þú skiptir úr Reagila yfir í annað lyf.

 

Sjúklingar með nýrna- og lifrarvandamál

Ef þú ert með alvarleg nýrna- og lifrarvandamál er ekki víst að Reagila henti þér, þú skalt ráðfærðu þig við lækninn.

 

Aldraðir sjúklingar

Læknirinn mun velja vandlega viðeigandi skammt sem hentar þínum þörfum.

Aldraðir sjúklingar með vitglöp skulu ekki nota Reagila (minnisleysi).

 

Ef tekinn er stærri skammtur en mælt er fyrir um

Ef þú hefur tekið stærri skammt af Reagila en læknirinn hefur mælt fyrir um eða ef til dæmis barn hefur tekið það fyrir slysni, skaltu umsvifalaust hafa samband við lækninn eða fara á næsta sjúkrahús og taka umbúðirnar af lyfinu með þér. Þú gætir fundið fyrir sundli vegna lækkaðs blóðþrýstings eða óeðlilegum hjartslætti, syfju, þreytu eða óeðlilegum líkamshreyfingum og átt í erfiðleikum með að standa og ganga.

 

Ef gleymist að taka Reagila

Ef þú gleymir að taka skammt skaltu taka hann eins fljótt og þú manst eftir því. Hins vegar, ef það er nánast komið að næsta skammti skaltu sleppa skammtinum sem gleymdist og halda áfram eins og venjulega.

Ekki á að tvöfalda skammt til að bæta upp skammt sem gleymst hefur að taka.

Ef gleymist að taka tvo eða fleiri skammta á að hafa samband við lækninn.

 

Ef hætt er að nota Reagila

Ef þú hættir að nota lyfið hættir það að virka. Jafnvel þótt þér líði betur skaltu hvorki breyta eða hætta að taka dagskammtinn af Reagila nema læknirinn gefi fyrirmæli um það þar sem einkennin geta komið aftur.

 

Leitið til læknisins ef þörf er á frekari upplýsingum um notkun lyfsins.

4. Hugsanlegar aukaverkanir

Eins og við á um öll lyf getur þetta lyf valdið aukaverkunum en það gerist þó ekki hjá öllum.

 

Láttu lækninn tafarlaust vita ef þú ert með:

  • alvarleg ofnæmisviðbrögð sem koma fram sem hiti, bólga í munni, andliti, vörum eða tungu, mæði, kláði, húðútbrot og stundum blóðþrýstingsfall. (Mjög sjaldgæfar aukaverkanir)
  • sambland af hita, svitamyndun, vöðvastífleika og sleni eða syfju. Þetta gætu verið einkenni sjúkdóms sem kallast illkynja sefunarheilkenni. (Aukaverkanir þar sem tíðni er ekki þekkt)
  • óútskýranlegar vöðvaverkir, vöðvakrampar eða vöðvaslappleiki. Þetta geta verið einkenni um vöðvaskemmdir sem geta valdið mjög alvarlegum nýrnavandamálum. (Mjög sjaldgæfar aukaverkanir)
  • einkenni tengd blóðtöppum í bláæðum, sérstaklega í fótleggjum (einkenni eru m.a. bólga, verkur og roði í fótleggnum) sem geta borist með blóðæðum til lungna og valdið brjóstverk og öndunarerfiðleikum. (Aukaverkanir þar sem tíðni er ekki þekkt)
  • hugsanir eða tilfinningar um að skaða þig eða fremja sjálfsvíg, sjálfsvígstilraun (Sjaldgæfar aukaverkanir)

 

Aðrar aukaverkanir

 

Mjög algengar aukaverkanir (geta komið fyrir hjá fleiri en 1 af hverjum 10 einstaklingum)

 

  • eirðarleysi og erfiðleikar með að sitja kyrr
  • Parkinsonsheilkenni – sjúkdómur með margvíslegum einkennum sem eru m.a. minnkaðar eða hægar hreyfingar, hæg hugsun, rykkir þegar útlimir eru beygðir (tannhjólastirðnun), að draga fæturna í stuttum og hröðum skrefum, skjálfti, lítil eða engin svipbrigði, vöðvastífleiki, slefa

 

Algengar aukaverkanir (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 10 einstaklingum)

 

  • kvíði
  • syfja, svefnörðugleikar, óeðlilegir draumar, martraðir, svefnganga
  • sundl
  • ósjálfráðar snúningshreyfingar og einkennilegur líkamsburður
  • óhóflegt tannagnístur eða samanbitnir kjálkar, slefa, stöðugt blikk sem svörun við banki á enni (óeðlilegt viðbragð), hreyfitruflanir, truflun á tunguhreyfingu (þetta kallast utanstrýtueinkenni)
  • þokusýn
  • hár blóðþrýstingur
  • hraður, óreglulegur hjartsláttur
  • minnkuð eða aukin matarlyst
  • ógleði, uppköst, hægðatregða
  • þyngdaraukning
  • þreyta
  • eftirfarandi getur komið fram í rannsóknarstofuprófunum:
    • hækkuð lifrarensím
    • hækkaður kreatínfosfókínasi í blóði
    • óeðlilegt magn af fituefnum (t.d. kólesteróli og/eða fitu) í blóði

 

Sjaldgæfar aukaverkanir (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 100 einstaklingum)

 

  • þunglyndi
  • skyndilegt og mikið rugl
  • svimi
  • óþægilegt, óeðlilegt snertiskyn
  • slen, skortur á orku eða áhuga á að gera hlutina
  • ósjálfráðar hreyfingar, oftast í tungu eða andliti. Þetta getur komið fram eftir skammtíma – eða langtímanotkun.
  • minnkuð eða aukin kynhvöt, risvandamál
  • augnerting, hár þrýstingur í auganu, slæm sjón
  • vandamál með sjónskerpu við að sjá í fjarlægð eða við að sjá nálægt
  • lágur blóðþrýstingur
  • óeðlilegar niðurstöður á hjartarafriti, óeðlileg taugaboð í hjartanu
  • hægur, óreglulegur hjartsláttur
  • hiksti
  • brjóstsviði
  • þorsti
  • verkir við þvaglát
  • óeðlilega tíð eða mikil þvaglát
  • kláði, útbrot
  • sykursýki
  • eftirfarandi getur komið fram í rannsóknarstofuprófunum:
    • óeðlilegt magn natríums í blóði
    • hækkaður glúkósi í blóði (blóðsykur), aukið galllitarefni (bilirúbín) í blóði
    • blóðleysi (fækkun rauðra blóðkorna)
    • fjölgun ákveðinnar tegundar hvítra blóðkorna
    • minnkað magn skjaldkirtilsörvandi hormóns (TSH) í blóðinu

 

Mjög sjaldgæfar aukaverkanir (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 1.000 einstaklingum)

 

  • krampar
  • minnisleysi, málstol
  • óþægindi í augum í björtu ljósi
  • ský á augasteini sem veldur sjónskerðingu (drer)
  • kyngingarörðugleikar
  • fækkun hvítra blóðkorna, þetta getur gert þig næmari fyrir sýkingum
  • vanvirkur skjaldkirtill.

 

Aukaverkanir þar sem tíðni er ekki þekkt (ekki hægt að áætla tíðni út frá fyrirliggjandi gögnum)

 

  • bólga í lifur (verkur í efri hluta kviðar hægra megin, gulnun augna og húðar, þróttleysi, hiti)

 

Tilkynning aukaverkana

Látið lækninn vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Einnig er hægt að tilkynna aukaverkanir beint samkvæmt fyrirkomulagi sem gildir í hverju landi fyrir sig, sjá Appendix V. Með því að tilkynna aukaverkanir er hægt að hjálpa til við að auka upplýsingar um öryggi lyfsins.

 

5. Hvernig geyma á Reagila

Geymið lyfið þar sem börn hvorki ná til né sjá.

 

Ekki skal nota lyfið eftir fyrningardagsetningu sem tilgreind er á öskjunni og þynnupakkningunni á eftir EXP. Fyrningardagsetning er síðasti dagur mánaðarins sem þar kemur fram.

 

Geymið töflurnar í upprunalegum umbúðum til varnar gegn raka.

Ekki þarf að geyma lyfið við sérstök hitaskilyrði.

 

Ekki má skola lyfjum niður í frárennslislagnir eða fleygja þeim með heimilissorpi. Leitið ráða í apóteki um hvernig heppilegast er að farga lyfjum sem hætt er að nota. Markmiðið er að vernda umhverfið.

6. Pakkningar og aðrar upplýsingar

Reagila inniheldur

 

  • Virka innihaldsefnið er cariprazín.
    Reagila 1,5 mg: Hver munndreifitafla inniheldur cariprazínhýdróklóríð sem jafngildir 1,5 mg af cariprazíni.
    Reagila 3 mg: Hver munndreifitafla inniheldur cariprazínhýdróklóríð sem jafngildir 3 mg af cariprazíni.
    Reagila 4,5 mg: Hver munndreifitafla inniheldur cariprazínhýdróklóríð sem jafngildir 4,5 mg af cariprazíni.
    Reagila 6 mg: Hver munndreifitafla inniheldur cariprazínhýdróklóríð sem jafngildir 6 mg af cariprazíni.

 

  • Önnur innihaldsefni eru:
    Mannitól (E 421), maíssterkja, natríumsterkjuglýkólat af gerð A, malínsýra (E 296), natríumsterýlfúmarat (E 485), kísiltvíoxíð (E 551) (sjá einnig kafla 2 – Reagila munndreifitöflur innihalda natríum).

 

Lýsing á útliti Reagila og pakkningastærðir

 

  • Reagila 1,5 mg munndreifitöflur: Hvít eða næstum hvít, þríhyrnd, tvíkúpt tafla. Þvermál töflunnar er u.þ.b. 8 mm og þykktin er u.þ.b. 3-4 mm. Áletrun á annarri hliðinni er „C2“, hin hliðin er án áletrunar.
  • Reagila 3 mg munndreifitöflur: Hvít eða næstum hvít, kringlótt, tvíkúpt tafla. Þvermál töflunnar er 7 mm og þykktin er u.þ.b. 3-4 mm. Áletrun á annarri hliðinni er „C3“, hin hliðin er án áletrunar.
  • Reagila 4,5 mg munndreifitöflur: Hvít eða næstum hvít, ferhyrnd, tvíkúpt tafla. Þvermál töflunnar er u.þ.b. 7 mm og þykktin er u.þ.b. 3-4 mm. Áletrun á annarri hliðinni er „C4“, hin hliðin er án áletrunar.
  • Reagila 6 mg munndreifitöflur: Hvít eða næstum hvít, sporöskjulaga, tvíkúpt tafla. Breidd töflunnar er 5 mm, lengdin er 8,5 mm og þykktin er u.þ.b. 3-4 mm. Áletrun á annarri hliðinni er „CI“, hin hliðin er án áletrunar.

 

Reagila 1,5 mg, 3 mg, 4,5 mg og 6 mg munndreifitöflur eru fáanlegar í pakkningastærðum sem innihalda 28 eða 30 munndreifitöflur.

 

Ekki er víst að allar pakkningastærðir séu markaðssettar.

 

Markaðsleyfishafi og framleiðandi

 

Gedeon Richter Plc.

Gyömrői út 19-21.

1103 Budapest

Ungverjaland

 

Hafið samband við fulltrúa markaðsleyfishafa á hverjum stað ef óskað er upplýsinga um lyfið:

 

België/Belgique/Belgien/Danmark/Deutschland
/Ελλάδα/España/France/Ireland/Ísland/Italia/
Κύπρος/Luxembourg/Luxemburg/
Magyarország/Malta/Nederland/Norge/
Österreich/Portugal/Suomi/Finland/Sverige/
United Kingdom (Northern Ireland)

Richter Gedeon Nyrt
Tél/Tel/Tlf/Τηλ/Sími/Puh: +36 1 505 7032

Lietuva
Gedeon Richter Plc. atstovybė Lietuvoje
Tel: +370 5 261 01 54
България
ТП „Гедеон Рихтер АД”
Teл.: + 359 2 8129063
Polska

GEDEON RICHTER POLSKA Sp. z o.o.
Tel.: + 48 (22)755 96 48

Česká republika
Gedeon Richter Marketing ČR, s.r.o.
Tel: +420 261 141 200
România
Gedeon Richter România S.A.
Tel: +40-265-257 011
Eesti
Richter Gedeon Eesti filiaal
Tel: +372 608 5301
Slovenija
Gedeon Richter d.o.o
Tel: +386 8 205 68 70
Hrvatska
Gedeon Richter Croatia d.o.o.
Tel: + 385 1 5625 712
Slovenská republika

Gedeon Richter Slovakia, s.r.o.
Tel: +421 2 5020 5801

Latvija
Gedeon Richter Plc. pārstāvniecība Latvijā
Tel: +371 67845338
 

 

Þessi fylgiseðill var síðast uppfærður 02/2025

 

Upplýsingar sem hægt er að nálgast annars staðar

Nálgast má ítarlegar og uppfærðar upplýsingar um lyfið með því að skanna QR-kóðann hér fyrir neðan og ytri öskjuna með snjallsíma.

Sömu upplýsingar er einnig að finna á eftirfarandi vefslóð: www.reagila.com

 

Ítarlegar upplýsingar um lyfið eru birtar á vef Lyfjastofnunar Evrópu http://www.ema.europa.eu.